Innlent

Segir Kaupþing hafa hótað sér

Vincent Tchenguiz
Vincent Tchenguiz
Skilanefnd Kaupþings lét Vincent Tchenguiz vita af því að það væru „aðrar leiðir“ til að ná til hans en að fara á eftir eignum hans. Vegna þessara skilaboða kom Tchenguiz það ekki á óvart þegar hann var handtekinn í mars 2011 af bresku efnahagsbrotalögreglunni, Serious Fraud Office (SFO), vegna viðskipta félaga sem hann stýrir við Kaupþing. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegu viðtali við Tchenguiz í Fréttablaðinu í dag.

„Ég átti alveg von á því að eitthvað myndi gerast í mars 2011. Ég vissi bara ekki alveg hvað. Ég varð ekkert sérstaklega undrandi þegar ég var handtekinn, enda hafði ég fengið skilaboð um það frá Kaupþingi að þeir væru að hugsa um að gera eitthvað. Þeir, skilanefndin, sögðu mér, eins og ég man það, að það væru til „aðrar leiðir“ að mér. Sá sem sagði þetta útskýrði ekki hvaða leiðir það væru,“ segir Tchenguiz.

Hann segir að samband sitt við Kaupþing fyrir hrun hafa verið fagmannlegt en að íslensku bankarnir hafi í raun verið vogunarsjóðir. „Efnahagsreikningur þeirra var allt í einu orðinn 50 milljarðar dala, nánast allt var fjármagnað á markaði, og eiginfjárhlutfallið kannski tíu prósent. Voru þetta þá bankar eða vogunarsjóðir? Ég held að þeir hafi orðið að vogunarsjóðum á einhverjum tímapunkti. Þeir voru álitnir bankar en einungis lítið brot af starfsemi þeirra var hefðbundin bankastarfsemi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×