Innlent

Á móti banni á umfjöllun um kannanir

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis leggst gegn því að fjölmiðlum verði bannað að birta niðurstöður skoðanakannana á kjördag og daginn fyrir kosningar hér á landi.

Ákvæði þess efnis er að finna í frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um breytingar á lögum um fjölmiðla. Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk í lok mars en það var síðan tekið til umfjöllunar í nefndinni.

Álit meirihluta nefndarinnar á frumvarpinu sem og breytingartillögur meirihlutans voru birtar í byrjun síðasta mánaðar.

Í greinargerð með frumvarpi Katrínar kom fram að þau sjónarmið lægju að baki ákvæðinu að skoðanakannanir gætu verið skoðanamyndandi fyrir kjósendur og skaðað minni framboð.

Í rökstuðningi meirihluta nefndarinnar fyrir afstöðu sinni er hins vegar bent á að þrátt fyrir lögfestingu ákvæðisins yrði ekki komið í veg fyrir að niðurstöður kannana spyrðust út með öðrum hætti en með milligöngu fjölmiðla. Því telur meirihlutinn að ákvæðið þarfnist nánari skoðunar og leggur til að það falli á brott.

Loks er þeirri tillögu beint til ráðherra að hann skipi nefnd sem skuli móta tillögur að reglum um umfjöllun fjölmiðla um kosningar.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×