Innlent

Tuttugasti október verði kjördagur

ásta ragnheiður jóhannesdóttir
ásta ragnheiður jóhannesdóttir
Gera má ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fari fram 20. október, á meðan ekki hefur verið tekin önnur ákvörðun. Þetta kemur fram í bréfi Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, til innanríkisráðuneytisins.

Innanríkisráðuneytið sendi forsætisnefnd Alþingis bréf þann 6. júlí þar sem óskað var eftir staðfestingu þingsins á því hvort 20. október verði kjördagur þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þingsályktunartillaga sem þingið samþykkti í vor gerir ráð fyrir því að atkvæðagreiðslan fari fram ekki seinna en 20. október, en í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna ákveður Alþingi kjördag. Innanríkisráðuneytið á svo samkvæmt lögunum að auglýsa hana í síðasta lagi mánuði fyrir kjördag.

Í bréfi forseta Alþingis segir að erindi innanríkisráðuneytisins verði lagt fyrir forsætisnefnd á næsta fundi hennar í ágúst. ?Forsætisnefnd er ekki bær til þess að staðfesta vilja eða áform Alþingis eða túlka ályktanir þess á annan hátt. Ef sérstök þörf er á verður ráðuneytið því að bregðast við alveg sjálfstætt,? segir í bréfinu. Þá segir þar að taki Alþingi aðra ákvörðun um kjördag eftir að það hefur komið saman í september verði ráðuneytinu gerð grein fyrir því.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×