Innlent

Kálið ræktað nærri vígðri mold

Það var nóg um að vera í grænmetismarkaðnum í Hveragerði þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði. Það fer vel á því að grænmetið sé selt skammt frá Eden enda fer því ekki fjarri að það sé ræktað í kálgarði drottins. fréttablaðið/pjetur
Það var nóg um að vera í grænmetismarkaðnum í Hveragerði þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði. Það fer vel á því að grænmetið sé selt skammt frá Eden enda fer því ekki fjarri að það sé ræktað í kálgarði drottins. fréttablaðið/pjetur
Paradís virðist ekki hafa farið langt þó Eden í Hveragerði hafi brunnið því að skammt frá rústum Edens slá feðginin Hjörtur Benediktsson og Helga Hjartardóttir upp markaði um helgar þar sem grænmeti, bleikja og hrossabjúgu renna út eins og heitar lummur.

Mest er lagt upp úr grænmetinu sem Hjörtur ræktar nær allt sjálfur. ?Það liggur við að þetta sé ræktað í vígðri mold því ég er með þetta í Hjallakróki í Ölfusi, spölkorn frá kirkjujörðinni,? segir hann af gamansemi.

Þetta er þriðja sumarið í röð sem þau slá upp bás sínum á þessum stað og segir hann að nóg sé að gera. "Grænmetið rokselst og síðan eru hrossabjúgun sem ég fæ frá fólkinu á Böðmóðsstöðum í Laugardal svo vinsæl að birgðirnar sem áttu að duga út helgina seldust upp strax klukkan fimm á föstudaginn. Enda var geysimargt um manninn þann dag, þetta var bara eins og á útihátíð."

Básinn er fyrir utan leikhúsið í Hveragerði en þau feðgin fá einnig að nota aðstöðuna þar inni. Hjörtur er eflaust vel að því kominn því milli þess sem hann sinnir hlutverki garðyrkjubónda og sölumanns leikur hann hin ýmsu hlutverk hjá Leikfélagi Hveragerðis.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×