Innlent

Borgin kaupi Perluna og sýni náttúruminjar

Starfshópur skipaður fulltrúum Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins kannar möguleikann á náttúruminjasýningu í Perlunni. Hann á að skila af sér fyrir 1. september. fréttablaðið/teitur
Starfshópur skipaður fulltrúum Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins kannar möguleikann á náttúruminjasýningu í Perlunni. Hann á að skila af sér fyrir 1. september. fréttablaðið/teitur
Borgarráð Reykjavíkur hefur óskað eftir viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um uppsetningu náttúruminjasýningar í Perlunni. Forsendan fyrir því er að borgin kaupi Perluna af Orkuveitunni og leigi ríkinu aðstöðu til sýningar í að minnsta kosti 10 ár. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að nýr kafli hafi hafist í söluferli Perlunnar þegar ljóst var að ekkert tilboðanna var án fyrirvara um breytingar á skipulagi.

„Ein þeirra hugmynda sem sett hefur verið fram í umræðunni er að í Perlunni verði náttúruminjasýning, að minnsta kosti á meðan verið er að marka stefnuna um framtíð Náttúruminjasafns Íslands sem hefur staðið til að reisa í Reykjavík til framtíðar.

Við settum okkur í samband við menntamálaráðuneytið um hvort áhugi væri á að skoða þessa hluti, því það er ekki áhugi af hendi borgarinnar á að kaupa Perluna til þess að eiga húsið og reka veitingastað.“

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir ráðuneytið tilbúið til að kanna þennan möguleika með borginni. „Við erum reiðubúin að skoða þetta, en það hefur ekki verið ákveðið með formlegum hætti. Borgin mun óska eftir því að við skoðum þetta með þeim og við munum gera það.“

Til stóð að selja Perluna einkaaðilum en Dagur segir að hugmynd um spennandi safn í húsinu sem mundi selja aðgang gæti staðið betur undir rekstri hússins en nú er gert.

Í minnisblaði borgarráðs um málið er tíundað að samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu geri fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar ráð fyrir allt að 500 milljóna króna stofnkostnaði við náttúruminjasýningu í leiguhúsnæði.

„Til skoðunar gæti því komið að Reykjavíkurborg festi kaup á Perlunni en ríkið kostaði sýninguna og greiddi leigu.“ Dagur segir að slík sýning yrði að vera til að minnsta kosti 10 ára. „Það er ljóst að það þyrfti að gera einhverjar breytingar inni í Perlunni og leggja í einhvern stofnkostnað og ég held að það verði ekki gert nema að minnsta kosti til 10 ára. Með því er ekki verið að slá út af borðinu að í framtíðinni muni rísa Náttúruminjasafn í Reykjavík.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×