Innlent

Áform um kalkþörungavinnslu

Ef allt gengur að óskum verður slík vinnsla líka á norðanverðum Vestfjörðum innan nokkurra ára. fréttablaðið/jón Sigurður
Ef allt gengur að óskum verður slík vinnsla líka á norðanverðum Vestfjörðum innan nokkurra ára. fréttablaðið/jón Sigurður
Kalkþörungafyrirtækin Celtic Sea Minerals og Kalkþörungafélagið, sem nú þegar reka kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, hafa uppi áform um að starfrækja aðra slíka verksmiðju á norðanverðum Vestfjörðum.

Hafrannsóknastofnun rannsakar í framhaldinu kalkþörunganámur í Ísafjarðardjúpi og verði niðurstaðan jákvæð verður hafist handa við að koma verksmiðju á laggirnar. Að sögn Shirans Þórissonar, verkefnastjóra Vaxtarsamnings Vestfjarða, sem kemur einnig að verkefninu, er óvíst hvort verksmiðjan yrði í Bolungarvík, Ísafjarðarbæ eða Súðavík. „Það mikilvægasta er að þetta mun hafa jákvæð áhrif á þetta atvinnusvæði, það er að segja norðanverða Vestfirði,“ segir Shiran. Ef af verður munu skapast á bilinu tuttugu og fimm til þrjátíu og fimm störf við vinnsluna sem er sambærilegt við verkunina á Bíldudal.

Shiran segir að rannsóknin geti tekið rúmt ár. „Þetta er langtímaverkefni sem getur orðið að veruleika eftir fjögur til fimm ár ef allt gengur að óskum í rannsóknum, umhverfismati og staðarvalsgreiningum,“ segir hann. „Það er allt í lagi, góðir hlutir gerast hægt.“

Talið er að kalkþörunganámurnar í Ísafjarðadjúpi séu um átta sinnum stærri en þær í Arnarfirði.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×