Innlent

Gamla flugstöðin verður rifin

Engin starfsemi hefur verið í flugskýlinu við Keflavíkurflugvöll síðan herinn fór árið 2006. fréttablaðið/gva
Engin starfsemi hefur verið í flugskýlinu við Keflavíkurflugvöll síðan herinn fór árið 2006. fréttablaðið/gva
Stjórn Isavia hefur samþykkt að láta rífa tvær byggingar á Keflavíkurflugvelli.

Gamla flugstöðin á vellinum verður rifin á næstunni, en hún stendur á verðmætri lóð þar. Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að flugstöðin sé ónýt. Upp hafa komið hugmyndir um að byggja þjónustubyggingu fyrir einkaflugvélar þar sem flugstöðin stendur nú.

Þá verður ein stærsta byggingin á Suðurnesjum rifin ef ekki finnst hentug starfsemi í hana. Byggingin er flugskýli 885 á flugvellinum. Frá því að Bandaríkjaher yfirgaf landið fyrir sex árum síðan hefur skýlið staðið autt meira og minna og engin hentug starfsemi fundist í staðinn að sögn Friðþórs. Verkefni sem hugmyndir hafa verið uppi um kæmu inn í húsið hafa ýmist verið of lítil eða of stór fyrir það. Nú sé verið að kanna hvort í raun sé hægt að koma starfsemi þangað inn, en byggingin er rúmir 17 þúsund fermetrar.

Byggingin er því dýr í rekstri auk þess sem hún þarfnast endurbóta sem munu kosta mikið. Ekki er gert ráð fyrir að niðurrif hennar muni kosta mikið að sögn Friðþórs, enda munu þar falla til allt að 4.500 tonn af stáli sem fari til endurvinnslu. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×