Innlent

Troðfullur skóli bíður húsnæðis

Eykt hefur hafið framkvæmdir við nýbyggingu Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Verklok eru áætluð fyrir árslok 2013. Fréttablaðið/Pjetur
Eykt hefur hafið framkvæmdir við nýbyggingu Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Verklok eru áætluð fyrir árslok 2013. Fréttablaðið/Pjetur
„Við vonumst til að geta hafið vorönn 2014 í nýja húsinu og það er mikil tilhlökkun bæði hjá nemendum og starfsfólki.“ Þetta segir Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, um nýtt skólahús sem nú er í byggingu í miðbæ Mosfellsbæjar.

Framhaldsskólinn hóf starfsemi árið 2009 og hefur hingað til verið starfræktur í húsinu Brúarlandi. „Við höfum vaxið ansi hratt,“ segir Guðbjörg. „Við erum nú með um 270 nemendur og höfum enda sprengt utan af okkur húsnæðið og nýtum okkur nú allt húsnæði sem við getum í nágrenninu á meðan við bíðum eftir nýja húsinu.“

Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin um miðjan síðasta mánuð og er jarðvegsvinna komin á fullt. Húsið verður rúmir fjögur þúsund fermetrar að flatarmáli og getur sinnt allt að 500 nemendum. Ráðgert er að taka það í notkun í upphafi árs 2014.

Byggingin er hönnuð með umhverfissjónarmið og sjálfbærni að leiðarljósi.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×