Innlent

„Þurfti að láta lesa fréttina tvisvar“

Árni Múli Jónasson
Árni Múli Jónasson
„Ég þurfti að láta lesa fréttina tvisvar fyrir mig áður en ég trúði að þetta væri ekki brandari,“ segir Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á Akranesi, vegna fréttar í Fréttablaðinu í gær um bókhald vegna gjafa og risnu á vegum bæjarins.

Eins og fram kom í gær samþykkti bæjarráð Akraness tillögu Gunnars Sigurðssonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar en nú varaáheyrnarfulltrúa í bæjarráði, um að settar verði reglur um risnu, gjafir og gestamóttökur á vegum bæjarins. Tilefnið var endurskoðunarskýrsla þar sem meðal annars er gagnrýnt að í flestum tilfellum kæmi ekki fram á reikningum hver nyti risnunnar og gjafanna.

Árni segir það vissulega rétt að skráningu hafi verið ábótavant. Þegar, áður en Gunnar lagði fram tillögu sína, hafi verið hafist handa við að bæta úr því. Hann bendir hins vegar á að síðustu tvö ár hafi þessir liðir hjá bænum verið helmingi lægri en kjörtímabilið á undan.

„Þá var Gunnar Sigurðsson forseti bæjarstjórnar og stundum staðgengill bæjarstjóra. Ég er ekki hrifinn af því þegar þeir sem ættu helst að útskýra hvernig þeir hafa haldið á almannafé séu að gera tortryggilega þá sem eru að standa sig vel í því,“ segir bæjarstjórinn.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×