Innlent

Fékk átján mánuði fyrir líkamsárás

Mennirnir voru allir fundnir sekir – tveir þeirra fyrir að koma þolandanum ekki til hjálpar.
Mennirnir voru allir fundnir sekir – tveir þeirra fyrir að koma þolandanum ekki til hjálpar. Fréttablaðið/stefán
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 28 ára mann í átján mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á Laugavegi í lok febrúar. Fórnarlambið, óreglumaður á fimmtugsaldri, slasaðist lífshættulega og lá á gjörgæsludeild um tíma.

Mönnunum sinnaðist í samkvæmi og það leiddi til þess að annar réðst á hinn, kýldi hann í magann og tók hann kverkataki. Í atganginum féll sá eldri niður stiga og slasaðist við það töluvert. Þegar niður var komið traðkaði árásarmaðurinn á höfði hans. Hann naut svo aðstoðar tveggja félaga sinna við að bera manninn að húsasundi í nágrenninu og skilja hann þar eftir.

Maðurinn var sakfelldur fyrir árásina, en ekki fyrir að vera beinlínis valdur að því að maðurinn féll niður stigann. Þá þykir ekki sannað að hann hafi orsakað höfuðkúpubrotið sem maðurinn hlaut.

Tvímenningarnir sem aðstoðuðu árásarmanninn fengu sex mánaða fangelsisdóm fyrir að láta hjá líða að koma manninum til hjálpar.

Hinn slasaði er á batavegi en glímir þó enn við afleiðingar árásarinnar, á ekki gott með mál og fær höfuðverki. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×