Innlent

Háttalag trjágeitungsins einsdæmi

Yfirgefna og marglitaða holugeitungabúið er árs gamalt en grátt bú trjágeitungsins er síðan í vor.
Yfirgefna og marglitaða holugeitungabúið er árs gamalt en grátt bú trjágeitungsins er síðan í vor. mynd/hanna Katrín Friðriksson
„Þetta er algert einsdæmi,“ segir Konráð Magnússon meindýraeyðir hjá meindýraeftirliti Firringar. „Það er svo ólíklegt að þetta geti skeð að ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum.“

Konráð fullyrðir að svona lagað hafi enginn myndað í heiminum. Holugeitungabúið, sem er í bílskúr í Fossvogi, er árs gamalt og dautt. Trjágeitungar hafa svo gert sér bú og hengt það neðan í holugeitungsbúið í vor.

„Ástæðan fyrir þessu er að þarna var holugeitungur sem bjó sér bú. Einhverra hluta vegna þá drepst það bú, það geta verið margar ástæður fyrir því. Í vor kemur trjágeitungur og hann byrjar að búa sitt heimili og einhverra hluta vegna byrjar hann neðan á holugeitungsbúinu.“

Á Vísindavefnum segir að trjágeitungar geri sér oft bú á trjágreinum eða girðingum. Þeir séu sýnilegri en holugeitungarnir sem hverfa oft ofan í holu eða undir þakskegg. Konráð segir enga sérstaka ástæðu vera fyrir því að trjágeitungur hafi gert sér bú við gamalt bú annarra geitunga. Þetta sé því alger tilviljun.

„Trjágeitungurinn hefur í búinu gert holur fyrir lirfur og búinn að verpa tveimur eggjum,“ segir Konráð. „Síðan drepst drottningin. Hefði hún haldið áfram þá hefði búið rifnað niður. Ég efast um að nokkur maður í heiminum hafi tekið svona mynd.“- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×