Innlent

Segir að vatnsaflið sé að mestu fullnýtt

Á meðal þeirra virkjanakosta sem færðust úr nýtingar- í biðflokk í vinnu við þingsályktunartillögu um Rammaáætlun eru þrjár virkjanir í Þjórsá. Urriðafossvirkjun er ein þeirra.
Á meðal þeirra virkjanakosta sem færðust úr nýtingar- í biðflokk í vinnu við þingsályktunartillögu um Rammaáætlun eru þrjár virkjanir í Þjórsá. Urriðafossvirkjun er ein þeirra. fréttablaðið/vilhelm
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir ekki undarlegt að saxist á möguleika til vatnsaflsvirkjana hér á landi. Tveir þriðju hlutar kostanna séu þegar nýttir. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði við Fréttablaðið í gær að sérkennilegt væri að ekki væri gert ráð fyrir vatnsaflsvirkjunum svo heitið gæti í Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

„Rammaáætlun er ekki hugsuð sem hlaðborð fyrir orkufyrirtækin. Hún er tillaga um nýtingu landssvæða á grundvelli faglegra upplýsinga og þekkingar,“ segir Svandís.

Hún fagnar orðum Harðar um að jarðvarmann verði að nýta í skrefum. „Það er mikilvægt að Landsvirkjun, eins og aðrir nýtingaraðilar, skipi sér í sveit með þeim sem hafa efasemdir um að jarðvarmavirkjanir séu eins fljótlegur kostur og menn hafa viljað vera láta til skamms tíma. Það er rétt hjá honum að rannsaka beri þessa kosti mjög vel, meðal annars með tilliti til sjálfbærni auðlindarinnar og líka þeirra hliðarverkana sem af slíkri nýtingu hljótast, eins og til að mynda brennisteinsáhrifa og jarðskjálftavirkni.“

Svandís segist ósammála Herði um að nægar rannsóknir hafi farið fram varðandi laxastofna í Þjórsá. „Við teljum að rýna þurfi í þessi mál miklu betur og höfum fengið fjölmargar ábendingar þar um. Í anda Árósasamningsins viljum við láta umhverfið njóta vafans og skoða málið betur.“

Umhverfisráðherra vonast til að mælt verði fyrir þingsályktunartillögu um Rammaáætlun fljótlega eftir páska. Mikilvægt sé að hefja nánari úrvinnslu bæði hvað varðar nýtingu svæða en einnig þar sem þarf að friðlýsa. Hún vonsast til að áætlunin verði samþykkt í vor.

„Ég minni hins vegar á að þetta er ekki áætlun um hvað á að nýta heldur um hvað má nýta.“

kolbeinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×