Innlent

Vilja rannsaka sölu þriggja banka

Mynd/Egill
Hópur þingmanna úr að minnsta kosti þremur flokkum, auk óháðra, mun í vikunni leggja fram á Alþingi tillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna frá árinu 1998 til 2003.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að skipuð verði þriggja manna nefnd sem rannsaki söluna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Nefndin skuli skila forseta Alþingis skýrslu eigi síðar en 1. janúar 2013.

Í drögum að tillögunni er lagt upp með fjölda ítarlegra rannsóknarspurninga. Í inngangi segir að nefndin skuli taka til umfjöllunar þá stefnu og viðmið sem lágu til grundvallar einkavæðingunni og að hve miklu leyti þeim var fylgt í framkvæmdinni. Lagt verði mat á ferlið, sem og ábyrgð og aðkomu einstakra ráðherra og embættismanna, samningar við nýja eigendur skoðaðir, efndir þeirra og undanþágur.

Þá er gert ráð fyrir því að nefndin vísi grun um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum til yfirvalda.

Samfylkingarmaðurinn Skúli Helgason er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Hann segir að þegar hafi fjórtán þingmenn úr Samfylkingu, Vinstri grænum og Hreyfingu, auk þingmanna utan flokka, samþykkt að vera meðflutningsmenn. Skúli segir þingflokk Framsóknar munu ræða málið á morgun en hann býst ekki við stuðningi við málið úr röðum Sjálfstæðisflokks.

Tillaga um rannsókn á einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka var flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar haustið 2010 en hún fékkst aldrei afgreidd úr allsherjarnefnd. „Við leggjum áherslu á að þessi tillaga nái fram að ganga núna og að rannsóknin fari fram á þessu ári," segir Skúli. - sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×