Innlent

Stefnt er að mokstri á stéttum í vikulokin

Allt gangstígakerfi Reykjavíkurborgar er um 950 kílómetrar að lengd. fréttablaðið/pjetur
Allt gangstígakerfi Reykjavíkurborgar er um 950 kílómetrar að lengd. fréttablaðið/pjetur
Yfir þúsund fyrirspurnir bárust frá íbúum Reykjavíkurborgar fyrir áramótin í gegnum ábendingagáttina á Reykjavík.is vegna mikils snjós á gangstígum víðs vegar um borgina. Til stendur að hefja mokstur á fimmtudag eða föstudag, að sögn Bjarna Brynjólfssonar, upplýsingastjóra Reykjavíkur.

„Þeir eru að glíma við þetta,“ segir Bjarni. „Frostið hefur tafið mikið fyrir.“ Bjarni útskýrir að gangstígum, stéttum og göngum sé skipt í þrjá þjónustuflokka; mikilvægustu göng og hjólastígar eru í flokki eitt, stéttir við stærri götur eru í flokki tvö og húsagötur í flokki þrjú. Nú er verið að hreinsa flokka eitt og tvö.

„Húsagöturnar eru vandamál þar sem þær eru stærsta fermetratalið. Búist við því að vinna hefjist við þær á fimmtudag eða föstudag,“ segir hann. Tíu vélar vinna að mokstri. Bjarni segir að ef ljúka ætti verkinu á einum eða tveimur sólarhringum þyrfti um 60 vélar til vinnunnar.

„Gangstígakerfið er í kringum 950 kílómetrar allt í allt,“ segir hann. „Og það er bara það sem er á okkar færi, svo það er ekkert skrýtið að þetta taki tíma.“

Veðurstofa Íslands spáir áframhaldandi frosti fram á föstudag. Þá er búist við töluverðri rigningu með hlýnandi veðri. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×