Fótbolti

Shevchenko sagði nei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andriy Shevchenko.
Andriy Shevchenko. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andriy Shevchenko sagði nei við því að taka við úkraínska landsliðinu í fótbolta en honum var boðið þjálfarastaðan þrátt fyrir að hafa enga reynslu af þjálfun. Oleg Blokhin hætti óvænt með landsliðið á dögunum og tók þess í stað við Dynamo Kyiv.

Andriy Shevchenko, sem er 36 ára gamall, er einn allra frægasta fótboltamaður Úkraínu frá upphafi en hann spilaði meðal annars með AC Milan og Chelsea áður en hann endaði ferilinn hjá Dynamo Kyiv.

„Ég er ekki tilbúinn að taka við landsliðinu í dag. Ég vona að forráðamenn sambandsins skilji mína afstöðu. Ég er viss um að landsliðið getur komist í úrslitakeppni HM 2014 og ég mun alltaf styðja á bak við liðið," sagði Andriy Shevchenko sem lagði skóna á hilluna eftir EM síðasta sumar.

Andriy Shevchenko lék 111 landsleiki frá 1995 til 2012 og skoraði í þeim 48 mörk sem er 33 mörkum meira en næsti maður. Hann var líka fyrirliði í 56 leikjanna eða oftar en nokkur annars landsliðsmaður Úkraínu.

Úkraína er með Englandi, Svartfjallalandi, Póllandi, Moldavíu og San Marínó í riðli í undankeppni HM 2014 en liðið hefur aðeins náð í tvö stig út úr þremur fyrstu leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×