Innlent

Sveinn Andri: Aðför kortafyrirtækjanna að málfrelsi stöðvuð

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Wikileaks getur starfað óhindrað af fullum krafti verði dómur Héraðsdóms Reykjavíkur gegn Valitor fordæmisgefandi annars staðar í heiminum, segir lögmaður Datacell. Vísa þarf að opna aftur greiðslugátt fyrir Datacell sem kortarisinn lokaði vegna tengsla við Wikileaks.

Það var í desember 2010 sem öll helstu kortafyrirtæki heims, Visa, Mastercard, Bank of America, Western Union og Paypal ákváðu að loka á allar greiðslugáttir til uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks eftir að síðan lak gríðarlegu magni upplýsinga um sendiráð Bandaríkjanna um allan heim.

Íslenska fyrirtækið Datacell sem var milliliður Wikileaks á Íslandi höfðaði í kjölfarið mál gegn Valitor. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð í málinu í dag en samkvæmt honum þarf Valitor að opna greiðslugáttina aftur innan 14 daga en greiða dagsektir uppá 800 þúsund krónur fyrir dag hvern eftir þann tíma.

Mál Datacell gegn Visa er eitt af mörgum málum sem Wikileaks hefur verið að undirbúa víða um heim gegn kortafyrirtækjunum.

„Þetta ætti að draga línurnar fyrir þau mál sem við erum með annars staðar í Brussel og Kaupmannahöfn og klárt að kortafyrirtækin hafi farið offorsi í þessum aðgerðum," segir Ólafur Sigurvinsson, rekstrarstjóri DataCell.

Lögmaður Datacell, Sveinn Andri Sveinsson, segir engin lagaleg gögn mæla með því að málinu verði áfrýjað en þrýstingur frá Visa móðurfélaginu gæti þar ráðið för.

„Það má segja að réttlætið hafi sigrað og þetta er dálítið sérstakt að það er lítill dómstóll í Reykjavík sem er að setja mönnum svona stólinn fyrir dyrnar og stöðva þessi alþjóðlegu kortafyrirtæki í því að hamla málfrelsið. Ef þessi dómur stendur þá er Wikileaks að fullu up and running í sinni starfsemi og þetta er virkilega gleðilegt," segir Sveinn Andri.

Wikileaks undirbýr nú hrinu skaðabótamála á hendur kortarisum í Bandaríkjunum og Bretlandi. Ekki er útilokað að krafist verði skaðabóta frá Valitor.

Wikileaks fjármagnaði sig eingöngu með framlögum frá einstaklingum víða um heim. Sú ákvörðun kortafyrirtækjanna að loka á greiðslugáttir til síðunnar hafði því mikil áhrif rekstur hennar.

„Þetta er náttúrulega feikilega ánæguleg niðurstaða og ákaflega mikilvægt fyrir okkur í Wikileaks," sagði Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×