Fótbolti

Alfreð hjálpar til að velja nýjan búning hjá Heerenveen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alfreð Finnbogason hefur slegið í gegn með Heerenveen í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta og er búinn að skora 9 mörk í fyrstu 10 deildarleikjunum fyrir lið Marco Van Basten. Alfreð er framtíðarframherji liðsins og er einn þriggja leikmanna liðsins sem fá að hjálpa til að velja búninga liðsins fyrir næsta tímabil.

Heimasíða SC Heerenveen segir frá því í dag að Alfreð, Marco Pappa og Ramon Zomer hafi fengið það verkefni að velja bestu tillögurnar af þeim 300 sem stuðningsmenn félagsins sendu inn en í frétt á heimasíðunni kemur fram að sumar tillögurnar hafi verið afar litríkar og skemmtilegar.

Stuðningsmenn fá síðan tækifæri til að velja endanlega heima- og útivallarbúninga inn á heimasíðu félagsins eftir að Alfreð og félagar hans hafa fundið út hvaða búningahugmyndir komu best út.

Nýir búningar Heerenveen-liðsins verða síðan kynntir til leiks í síðasta heimaleik ársins 2012 sem verður 22. desember næstkomandi á móti Vitesse.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×