Innlent

Árásin ekki tilkynnt til lögreglu

Árásin á drenginn er litin alvarlegum augum hjá lögreglunni sem rannsakar málið. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
fréttablaðið/stefán
Árásin á drenginn er litin alvarlegum augum hjá lögreglunni sem rannsakar málið. Myndin tengist fréttinni ekki beint. fréttablaðið/stefán
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú árás á sex ára dreng síðastliðinn föstudag. Lögreglumenn lásu um það í Fréttablaðinu í gærmorgun að þrír piltar hefðu ætlað að stela bolta af dreng í Breiðholti og ráðist á hann. Þeir hefðu sparkað í kvið hans og andlit.

Í kjölfar fréttarinnar í gær hófst lögreglurannsókn en engin kæra barst lögreglunni vegna málsins. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur embættið ávallt rannsókn leiði líkamsárás til beinbrots. Í þokkabót á barn í hlut.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að drengurinn hefði beinbrotnað í árásinni en í ljós hefur komið að hann er tognaður og fékk auk þess miklar blóðnasir.

Þórarinn Engilbertsson íþróttaþjálfari kom að árásinni og náði einum gerendanna. Lögregla tók af honum skýrslu í gær en ekki hafði tekist að hafa uppi á foreldrum gerendanna síðdegis í gær. Þá virðist sem fjölskylda drengsins sem fyrir árásinni varð hafi farið af landi brott um helgina.

Vísir greindi frá því í gær að foreldrar fórnarlambsins vilji leita lausna í málinu með foreldrum piltanna sem réðust svo harkalega á drenginn.

Lögreglan vann að rannsókn málsins í allan gærdag án árangurs. Hún biður þá sem kunna að hafa upplýsingar um málið að hafa samband í síma 444-1000.- bþh


Tengdar fréttir

Lögreglan leitar að gerendum og þolanda í árásarmálinu

"Okkur hefur ekki tekist að finna út hverjir þetta eru sem þarna eiga hlut að máli,“ segir Gylfi Sigurðsson, lögreglumaður á lögreglustöðinni í Kópavogi um árás þriggja pilta á sex ára gamlan dreng fyrir helgi. Gylfi segir í samtali við Vísi að málið sé rannsakað af fullri alvöru.

Þriggja pilta leitað eftir hrottalega árás á barn

"Þetta var alveg hræðilegt. Þegar ég kom á svæðið liggur drengurinn blóðugur á jörðinni og þeir hlupu í burtu," segir Þórarinn Engilbertsson knattspyrnuþjálfari. Hann varð vitni að fólskulegri árás fjögurra 12 til 13 ára pilta á sex ára dreng.

Foreldrar reyna að ná sáttum í fólskulegu líkamsárásarmáli

Unnið er að því að finna lausn á alvarlegu líkamsárásarmáli á milli foreldra barna sem í hlut eiga, en Fréttablaðið greindi frá því í morgun að fjórir 12- 13 ára piltar hafi gengið í skrokk á sex ára dreng um helgina, með þeim afleiðingum að hann handleggs- og kinnbeinsbrotnaði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kópavogi hefur málið ekki borist embættinu enn þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×