Innlent

Bætur hækkaðar til þolenda ofbeldis

Um næstu mánaðamót hækka bætur til þolenda ofbeldis. Þær hafa verið óbreyttar í sextán ár.
Um næstu mánaðamót hækka bætur til þolenda ofbeldis. Þær hafa verið óbreyttar í sextán ár.
Hámarksbætur fyrir miska sem ríkissjóður greiðir til dæmis þolendum kynferðisbrota og hafa verið óbreyttar í sextán ár verða hækkaðar úr 600 þúsund krónum í þrjár milljónir króna, samkvæmt lagabreytingu sem á að taka gildi um næstu mánaðamót.

Hingað til hafa þolendur kynferðisbrota sjálfir orðið að innheimta mismuninn á þeirri upphæð sem þeim var dæmd og bótunum sem ríkissjóður greiddi. Samkvæmt nýju lögunum geta þeir sem fá dæmdar bætur fengið aðstoð ríkissjóðs við að innheimta mismuninn í þeim tilvikum sem greiðsla ríkissjóðs nægir ekki fyrir dæmdum bótum.

„Ég hugsa að í mörgum tilfellum hafi innheimta aldrei verið reynd. Það er erfitt hugarfarslega að standa í því. Það þarf að ráða lögmann og innheimtan óviss,“ segir Halldór Þormar, starfsmaður bótanefndar vegna þolenda afbrota.

Hann tekur fram að ríkissjóði verði heimilt að taka gjald vegna aðstoðar við innheimtu. „Mér þykir líklegt að innheimtan verði gegn málamyndagjaldi.“

Hámarksbætur fyrir líkamstjón, þar með talið fyrir varanlegan miska og varanlega örorku, verða hækkaðar úr 2,5 milljónum króna í fimm milljónir króna. Hvorki verða þó greiddar bætur fyrir varanlegan miska nema hann sé að lágmarki fimm prósent né varanlega örorku nema hún sé að lágmarki 15 prósent. Er það í samræmi við það sem tíðkast í skaðabótalöggjöf til dæmis í Danmörku og Noregi, að sögn Halldórs.

Í frumvarpinu, sem samþykkt var í síðustu viku, er bent á að ekki hafi svo kunnugt sé verið farið fram á bætur vegna varanlegra andlegra afleiðinga kynferðisbrota þótt ætla megi að slík tjón séu í mörgum tilvikum veruleg. „Rannsóknir í Danmörku sýna að nokkur hluti kvenna sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi fellur brott af vinnumarkaði,“ greinir Halldór frá.

Markmiðið með lagabreytingunum er að bæta frekar meira tjón en það sem minna er. Miðað við þau mál sem bótanefnd afgreiddi á 36 mánaða tímabili frá 2009 til 2011 er áætlað að aðeins um fimm prósent þeirra sem gera kröfu um varanlegan miska muni ekki ná lágmarkinu. Miðað við kröfur um bætur fyrir varanlega örorku hefur einkum minni háttar tjón verið bætt en þeir sem orðið hafa fyrir meira tjóni hafa setið með það óbætt.

Ríkissjóður hefur árlega greitt 130 til 160 milljónir króna til þolenda ofbeldisbrota. Hækkun heildarútgjalda vegna breytinganna er áætluð 9 til 10 milljónir króna.

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×