Innlent

Hyggst senda borskip á Jan Mayen-hrygginn

Olíustofnun Noregs hefur leigt tvö skip til hljóðbylgjumælinga á Jan Mayen-hryggnum í sumar og hyggst í framhaldinu senda borskip þangað til rannsóknarborana þarnæsta sumar.

Olíustofnunin tilkynnti í vikunni um leigu rannsóknarskipanna fyrir þrjá og hálfan milljarð króna en skipin verða einnig notuð við mælingar í Barentshafi. Rannsóknir Norðmanna á Jan Mayen-hryggnum eru gerðar í samstarfi við íslensk stjórnvöld og koma Íslendingum til góða, enda ná þær inn í íslenska lögsögu og taka til þess svæðis í norsku lögsögunni sem Íslendingar eiga nýtingarrétt á.

Þær koma í framhaldi af ítarlegum rannsóknum síðastliðið sumar en niðurstöður þeirra reyndust mun jákvæðari en búist var við og hafa norskir fjölmiðlar sagt að þær gefi vonir um miklar olíulindir. Það er svo enn til marks um þá trú sem sérfræðingar Olíustofnunar Noregs hafa á svæðinu að stofnunin áformar að ráðast í boranir þar sumarið 2013 og leigja til þess borskip.

Slík skip hafa raunar tvívegis áður borað rannsóknarholur á Jan Mayen-hryggnum, fyrst Glomar Challenger árið 1974 og síðan Joides Resolution, árið 1995, en líklegt er að næsta borskip verði í líkingu við það sem er hér á myndinni að ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×