Innlent

Rannsakar áfram þrjár nauðganir í Eyjum

Jóhannes Ólafsson segir fíkniefnanotkun vera orðna fylgifisk skemmtanahalds.
fréttablaðið/óskar P. friðriksson
Jóhannes Ólafsson segir fíkniefnanotkun vera orðna fylgifisk skemmtanahalds. fréttablaðið/óskar P. friðriksson
Rannsókn stendur enn yfir á þremur nauðgunum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um liðna verslunarmannahelgi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Eyjum voru brotin öll framin í Herjólfsdal. Einn var handtekinn í tengslum við eina nauðgunina en honum var sleppt að yfirheyrslum loknum.

Á laugardagsmorgun kærði átján ára kona nauðgun. Tuttugu og tveggja ára gamall karlmaður var handtekinn en honum sleppt eftir að hafa neitað sök við skýrslutöku.

Sautján ára gömul stúlka kærði nauðgun á sunnudagskvöld og 27 ára gömul kona á mánudagsmorgun. Lögreglan lýsir eftir vitnum að tveimur síðarnefndu brotunum.

Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir rannsókn á þessum málum standa enn yfir. Lögreglan á Selfossi hefur forræði í rannsókninni þó hún fari að mestu leyti fram í Eyjum. „Nú er farið yfir myndir úr öryggismyndavélakerfi,“ segir Jóhannes. „Það hefur þegar gefist vel í einu líkamsárásarmáli. Verknaðurinn þar náðist á myndband. Svo á eftir að útfæra þetta betur, fjölga vélum og breyta sjónarhorni á þeim.“

Þá hafa aldrei komið upp fleiri fíkniefnamál á Þjóðhátíð í Eyjum. Þau voru 52 yfir alla helgina og segir lögreglan þar breyttar áherslur í eftirliti ástæðu þess að fleiri mál koma upp.

„Þetta virðist vera orðinn fylgifiskur skemmtanahalds. Við getum tekið sem dæmi hátíð sem haldin var á Suðurlandi þar sem kom upp fjöldi fíkniefnamála líka,“ segir Jóhannes. Hann segir flest efnin sem gerð voru upptæk hafa verið í neysluskömmtum – marijúana, kókaín, amfetamín og eitthvað af ofskynjunarsveppum.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×