Innlent

"Eldurinn læsir sér í ræturnar og fer niður í jörðina“

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Hafþór Gunnarsson skrifar
Slökkvilið Súðavíkur hefur ásamt bóndanum á Látrum barist við sinuelda í hátt í viku. Slökkviliðsstjórinn segir verkefnið eitt það erfiðasta sem hann hafi lent í og óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar í dag.

Slökkviliðið hefur síðan á föstudaginn barist við sinuelda í Laugardal í Ísafjarðardjúpi. Eldur kviknaði þá í mosa og gróðri við Laugarbólsvatn. Hann breiddist nokkuð hratt út enda jörð mjög þurr eftir langvarandi þurrka. Líkt og sést á þessum myndum sem Heiðar B. Jónsson tók þá. Síðan á föstudaginn hafa slökkviliðsmenn barist við sinueldana. Þeir hafa unnið á vöktum og dælt hátt í átta hundruð tonnum af vatni á svæðið á hverjum degi.

„Þetta er erfitt verk. Langerfiðasta verkefni sem ég hef lent í," segir Barði Ingibjartsson, slökkviliðsstjóri.

Í hverju logar? spyr fréttamaður.

„Það byrjar þannig að gróðurinn logar fyrst. En svo eru rætur og annað. Þetta er mest fjalldrapi hér og svo berjalyng. Eldurinn læsir sér í ræturnar og fer niður greinarnar og niður í jörðina og er á kafi í þúfunum. Svo er þetta bara glóð," segir hann.

Hann segir ljóst að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum, annað hvort vegna sígarettuglóðar eða út frá grilli.

Hátt í þriggja hektara landsvæðið hefur nú brunnið. Tekist hefur að koma í veg fyrir að eldurinn breiði úr sér og því hafa hvorki mannvirki né tún verið í hættu. Í gær leit út fyrir að búið væri að ná tökum á eldinum en þá bætti í vind. Í dag var því óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar og var þyrla send á svæðið til að aðstoða við slökkvistarfið skömmu fyrir fréttir.

„Við vorum nú mjög bjartsýnir í gærkvöldi. En það er erfitt að eiga við þetta núna, þessa glóð sem eftir er. Um leið og vindurinn kemur þá blossar eldur upp úr glóðinni," segir Barði.


Tengdar fréttir

Þyrlan lögð af stað

Þyrla Landhelgisgæslunnar er lögð af stað til Laugardals í Ísafjarðardjúpi til að aðstoða í glímunni við sinuelda sem logað hafa síðan á föstudag. Þyrlan komst ekki af stað fyrr en síðdegis þar sem þyrluflugmenn urðu að fá lögboðna hvíld eftir fyrra útkall áður en flogið var af stað að Ísafjarðardjúpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×