Innlent

Þarf að skoða þjálfun sundlaugarvarða

HA skrifar
Herdís Storgaard verkefnisstjóri barnaslysavarna.
Herdís Storgaard verkefnisstjóri barnaslysavarna.
Herdís Storgaard verkefnastjóri barnaslysavarna segir áhyggjuefni að í langflestum tilfellum komi gestir sundlauga börnum til bjargar sem hafa nærri drukknað en ekki starfsmenn lauganna. Skoða þurfi vandlega öryggisráðstafanir sundlauga og þjálfun sundlaugarvarða.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að tveir tólf ára piltar hafi naumlega bjargað sex ára dreng frá drukknun í sundlaug Akureyrar fyrir helgi. Að sögn forsvarsmanns laugarinnar hafði drengurinn barist við að ná andanum í um þrjár mínútur með fólk allt í kringum sig sem ekki tók eftir því hvað amaði að. Herdís Storgaard verkefnastjóri barnaslysavarna segir áhyggjuefni að gestir lauganna séu að koma börnum til bjargar við þessar aðstæður en ekki starfsmenn þeirra.

„Í hvert skipti sem það verður drukknun eða nærri því drukknun þá eru það alltaf gestirnir sem finna viðkomandi og þetta veldur mér áhyggjum. Þetta sýnir mér það ef ég horfi á þetta með forvarnargleraugum að fyrsta stigs forvarnir á sundstöðunum eru ekki að virka," segir Herdís.

„Auðvitað eru starfsmenn þjálfaðir í því að geta brugðist við og kunna sérhæfða skyndihjálp ef með þarf en markmið öryggisreglnanna er fyrst og fremst að þeir komist aldrei í þá aðstöðu að þurfa nota hana," bætir hún við.

Síðustu tæp tuttugu ár hefur drukknunartilfellum í sundlaugum fækkað um 65%. Þótt ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá foreldrum segir Herdís brýnt að þjálfa þurfi starfsmenn lauganna ennbetur. Auk þess þurfi að fjölga sundlaugarvörðum í takt við fjölgun gesta í sundlaugum hverju sinni.

„Þó mikið sé af myndavélum í sundlaugunum þá hef ég skoðað nokkrar laugar og þar hefur komið í ljós að mikið er af gráum svæðum. Kannski hefur sá sem rekur laugina ekki vitneskju um þessi gráu svæði því annars væri búið að lagfæra þetta. Gera þarf áhættumat á eftirlitinu í sundlaugum og það er ekki nóg að hafa einhvern til að fylgjast með myndavélunum, það þarf einhver að vera úti á bakkanum," segir Herdís að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×