Fótbolti

Pedro heldur áfram að raða inn mörkum með Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pedro Rodríguez.
Pedro Rodríguez. Mynd/AFP
Pedro Rodríguez, leikmaður Barcelona, var enn á ný á skotskónum með spænska landsliðinu í kvöld þegar Heims- og Evrópumeistararnir unnu 5-1 sigur á Panama í vináttulandsleik í Mið-Ameríku ríkinu í kvöld.

Pedro hefur nú skorað sjö mörk í síðustu fimm leikjum sínum með Spánverjum en hann var aðeins búinn að skora 2 mörk í fyrstu 18 leikjum sínum fyrir leikina í haust og vetur.

Pedro skoraði fyrsta markið á 16. mínútu eftir sendingu frá Andrés Iniesta sem lagði líka upp annað markið fyrir David Villa á 30. mínútu. Pedro skoraði síðan þriðja mark leiksins tveimur mínútum fyrir hálfleik eftir sendingu frá Chelsea-manninum Juan Mata. Pedro, Andrés Iniesta og Juan Mata voru síðan allir teknir útaf í hálfleik.

Miðvörðurinn Sergio Ramos skoraði fjórða markið beint úr aukaspyrnu á 82. mínútu en hann var að skora í öðrum landsleik sínum í röð eftir að hafa skorað mark liðsins í 1-1 jafntefli á móti Frökkum á dögunum.

Markel Susaeta, leikmaður Athletic Bilbao, skoraði síðan fimmta markið á 84. mínútu eftir sendingu frá Jesús Navas. Gabriel Gómez minnkaði muninn úr vítaspyrnu þremur mínútum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×