Fótbolti

Gerrard: Flottasta mark sem ég hef séð í eigin persónu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Zlatan Ibrahimovic í leiknum í kvöld.
Steven Gerrard og Zlatan Ibrahimovic í leiknum í kvöld. Mynd/AFP
Steven Gerrard, fyrirliði Englendinga, spilaði sinn hundraðasta landsleik í Svíþjóð í kvöld en kvöldið hans breyttist hinsvegar í sýningu hjá Svíanum Zlatan Ibrahimovic sem skoraði fernu í 4-2 sigri Svía.

„Ég er með blendnar tilfinningar. Ég er vonsvikinn með úrslitin en það var samt fullt af jákvæðum hlutum í þessum leik. Við stjórnuðum leiknum í 75 mínútur en leikur okkar hrundi í lokin," sagði Steven Gerrard við BBC.

„Það voru margir ungir leikmenn að spila í kvöld og mér fannst þeir vera frábærir. Mér fannst Raheem Sterling standa sig vel og hann var alltaf hættulegur. Þegar ég var 17 ára þá var ég að pússa skó hjá Liverpool en sjáið hversu langt hann er kominn," sagði Gerrard.

„Ég hef verið í fótboltanum í langan tíma en fjórða markið hans Zlatan er örugglega besta markið sem ég hef séð í eigin persónu. Ég get ekki hrósað því meira en það," sagði Gerrard um fjórða og síðasta mark Zlatan Ibrahimovic sem var algjört augnakonfekt.

„Ég hlakka til leiksins við Brasilíu í febrúar og tek síðan bara einn landsleik í einu. Ég ætla mér ekkert að ná eitthvað ákveðnum mörgum leikjum. Það eina sem ég hef sett stefnuna á er að koma enska landsliðinu inn á HM," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×