Innlent

Fangarnir brosa hringinn þegar þeir ná fyrsta prófinu

BBI skrifar
Ásókn fanga í nám eykst ár frá ári. Margrét Frímannsdóttir, fangelsisstjóri á Litlahrauni, segir það mjög jákvætt enda er hún á þeirri skoðun að „ekki sé til betri leið til betrunar og betra lífs heldur en að ljúka námi."

Af tuttugu manns sem afplánuðu á Sogni á síðasta ári voru 18 á námi. Á Litla Hrauni voru yfir 40 í námi á árinu af um 80 föngum. Enn meiri aðsókn verður á næsta ári og áhugi fanganna eykst stöðugt, enda hafa fangelsismálayfirvöld bætt aðstöðu til náms í fangelsunum eins og mögulegt er á síðustu árum. Á næsta ári verður um og yfir helmingur fanga í námi á Litla Hrauni en 75-80% á Sogni.

Um 50% fanga eru með ADHD greiningar. Þeir hafa snemma flosnað upp úr námi og hafa ekki góða reynslu af skólastarfi. Nú eru þrjú ár síðan náms- og starfsráðgjafi byrjaði að starfa við fangelsin. Hún tekur fangana í viðtal og metur getu þeirra. Eftir að hún kom til minnkaði brottfall fanga úr námi. „Og þegar þeir sjá árangurinn, ljúka stúdentsprófi þá trekkir það meira að," segir Margrét. „Þegar þeir ná fyrsta alvöru prófinu sem þeir ná á æfinni þá brosa þeir hringinn."

Margrét segir að miðað við löndin í kringum okkur sé Ísland hlutfallslega með flesta fanga í námi í framhaldsskóla og háskóla. „Langflestir fangar sem útskrifast frá okkur halda svo áfram í sínu námi eftir afplánun," segir Margrét.

Í nýlegri skýrslu er fjallað um liðið skólaár á Litla Hrauni og Bitru/Sogni. Þar kemur fram að aukið var við tölvukost fangelsanna auk þess sem ný kennslustofa var tekin í notkun á Bitru/Sogni. Einnig er farið lítillega yfir tölfræði: Á haustönn voru 276 námseiningar lagðar undir og skiluðu 156 sér í hús. Á vorönn voru 262 einingar lagðar undir og 172 skiluðu sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×