Innlent

10% skjólstæðinga missa húsið

Reikna má að húseignir um 100 skjólstæðinga umboðsmanns skuldara fari á sölu, sé miðað við þá samninga sem þegar hefur verið farið yfir.
Reikna má að húseignir um 100 skjólstæðinga umboðsmanns skuldara fari á sölu, sé miðað við þá samninga sem þegar hefur verið farið yfir. fréttablaðið/anton
Um tíu prósent þeirra sem gert hafa samninga með aðstoð umboðsmanns skuldara hafa misst húsnæði sitt vegna greiðsluerfiðleika. Stór hluti þeirra er of tekjuhár til að vera gjaldgengur í félagslegt stuðningskerfi sveitarfélaga.

Embættið hefur haft milligöngu um 1.024 samninga. Farið hefur verið yfir 619 samninga og af þeim eru 62 fasteignir þegar komnar á sölu, eða um tíu prósent.

Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi umboðsmanns skuldara, segir að fleiri af þeim sem leitað hafa til embættisins gætu verið í þeirri stöðu að hafa misst húsnæðið. Þessar tölur eigi við um þá sem fengið hafa samning, um tíu prósentum beiðna sé synjað.

„Þó flestir sem þurfa að selja fasteign geri það, þar sem þeir hafa ekki greiðslugetu eftir að búið er að taka tillit til framfærslu fjölskyldu, er stór hópur með of miklar tekjur til að fá aðstoð frá félagslegu kerfi sveitarfélaganna.“

Gunnar Axel Axelsson, aðstoðarmaður velferðarráðherra, segir að hluti hópsins teljist undir tekjumörkum sveitarfélaga varðandi húsnæðisstuðning. Hann segir að innleiðing húsnæðisbóta í stað vaxta- og húsaleigubóta yrði mjög til bóta.

„Þeir sem skríða yfir lágtekjumörkin en hafa ekki burði til að kaupa húsnæði fá engar húsnæðisbætur. Þessu stendur til að breyta með nýju húsnæðisbótakerfi.“

- kóp / sjá síðu 8




Fleiri fréttir

Sjá meira


×