Innlent

Ómar Ragnarsson: Þjófurinn er í vanda

Ómar segir að þjófurinn sé í vanda enda sé ómögulegt að koma stóru myndavélinni í verð.
Ómar segir að þjófurinn sé í vanda enda sé ómögulegt að koma stóru myndavélinni í verð. mynd/daníel
„Þeir sem tóku þetta eru áreiðanlega í vandræðum því það er enginn sem vill kaupa svona vél. Ég bara bíð og vona," segir skemmtikrafturinn Ómar Ragnarsson. Fyrir rúmlega tveimur vikum var stolið frá honum tveimur kvikmyndatökuvélum og einu magabelti með veski sem hann hafði lagt frá sér við innganginn á blokkinni sinni.

Nokkrum dögum síðar fannst þó veskið, en búið var að taka alla seðlana úr því. Ómar segir að ómögulegt sé að koma myndavélunum í verð þar sem stóra vélin er mikið löskuð og límd saman með límbandi. „Þjófurinn er í vanda. Myndefnið og myndavélin gagnast ekki nokkrum manni. Núna er ég myndavélalaus og á ekki pening til að kaupa mér nýja myndavél."

Ómar segist ekki muna nákvæmlega hvar hann lagði myndavélina frá sér en það var einhversstaðar á leiðinni frá útidyrahurðinni og að hurðinni að íbúðinni. Hann biðlar til þess sem stal myndavélunum tveimur að skila þeim. „Hann getur skilað þessu við dyragættina, á sama stað og hann tók hana. Mínir góðu nágrannar myndu svo afhenda mér þær. Ég mun aldrei segja frá því og set mig ekki í neitt dómarasæti. Ég heiti þagmælsku og lofa að engin eftirmál verði í þessu máli."

Heimasíða Ómars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×