Fótbolti

Lukkudýr HM 2014 heitir Fuleco

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Niðurstaða kosningu í Brasilíu um heiti lukkudýrs HM 2014 liggur nú fyrir. Lukkudýrið mun bera nafnið Fuleco.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, tilkynnti að nafnið Fuleco hafi fengið 48 prósent atkvæða í kosningunni en alls var kosið um þrjú nöfn. Zuzeco fékk 31 prósent og Amijubi 21 prósent.

FIFA segir að þátttaka í kosningunni hafi verið góð. Alls tóku um 1,7 milljón manna þátt en hún hefur staðið yfir í þrjá mánuði.

Nafnið Fuleco er samsett úr portúgölsku orðunum futebol (fótbolti) og ecologia (vistfræði).

Fuleco er beltisdýr en FIFA tilkynnti í september síðastliðnum að það yrði notað sem lukkudýr keppninnar. Fyrirmynd Fuleco er ákveðin tegund af beltisdýri sem er í útrýmingarhættu í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×