Innlent

Sígarettustubbar á eldsvæðinu

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Umgengni veiðimanna við Laugardalsvatn í Ísafjarðardjúpi er oft á tíðum slæm og hafa þeir skilið eftir sig sígarettustubba og annað rusl í náttúrunni, jafnvel á þeim svæðum sem hafa orðið jarðvegseldum síðustu vikna að bráð.

Samúel Sigurjónsson, sonur bóndans á Hrafnabjörgum var í Laugardalnum um helgina til að slökkva í glóðum sem víða leyndust þar í jörðu. Hann brá sér þó ekki eingöngu í hlutverk slökkviliðsmannsins heldur gegndi hann einnig hlutverki ruslamannsins þar sem þessi sóðaskapur blasti við honum.

„Umgengnin er mjög slæm við vatnið, hjá veiðimönnum. Bæði mikið af bjórdósum og svo er alveg ótrúlegt að sjá alla sígarettustubbana. Jafnvel eftir að brennur, þá er verið að henda stubbum á svæðið sem hefur brunnið. Og þetta eru greinilega stubbar sem ekki er drepið í, þessu er bara hent. Svo hefur tóbakið brunnið upp og alveg upp í filter. ," segir Samúel Sigurjónsson, sem staddur er um borð í Örvari SH frá Rifi.

Eldurinn er nú að mestu leyti kulnaður en slökkviliðið á Ísafirði tók í gær saman töluvert af tækjum sínum til að yfirfara og þrífa. Talið er að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum, en lögreglan á Ísafirði fer nú með rannsókn málsins.

Samúel minnir veiðimenn við Laugardalsá sem og aðra sem ferðast um landið á mikilvægi góðrar umgengni og ítrekar að það getur verið stórhættulegt að skilja sígarettustubba eftir sig á jörðu líkt og hann hefur orðið vitni að.

„Það vita það allir, en menn spá ekki í hvað þeir eru henda honum, hvort að landið sé skraufaþurrt. Þetta ætti að vekja mann meira til umhugsunar núna eftir að svona skaði skeður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×