Innlent

Ársreikningurinn stóðst lög

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs.
Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs. mynd/ gva.
Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir síðasta ár var í fullu samræmi við sveitastjórnarlög, samkvæmt áliti innanríkisráðuneytisins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir áliti ráðuneytisins á því hvort framsetning ársreiknings Reykjavíkurborgar væri í samræmi við ákvæði nýrra sveitastjórnarlaga sem samþykkt voru í fyrra. Málið var til umræðu á borgarráðsfundi í gær og var þá álit innanríkisráðuneytisins kynnt.

Í bókun sem sjálfstæðismenn lögðu fram á fundinum í gær segjast þeir hvetja til að endurskoða verði hvernig ársreikningurinn er uppsettur svo tryggt sé að reikningurinn sé skýrt framsettur og gefi góða mynd af fjárhagslegu stöðu og þróun borgarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins létu hins vegar bóka að niðurstaða ráðuneytisins væri skýr og mikilvæg fyrir borgarbúa sem eftir seinni umræðu í borgarstjórn hefðu getað haldið að ársreikningur borgarinnar gengi á svig við lög og reglur. „Ekki verður annað séð en að álitið staðfesti að ársreikningurinn hafi verið unninn af fagmennsku af fjármálaskrifstofu og öðrum sem komu að gerð hans," segir í bókun meirihlutans í borgarráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×