David Villa skoraði sitt fyrsta mark eftir meiðslin þegar Barcelona vann 5-1 sigur á Real Sociedad í fyrstu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Hann var þá að spila sinn fyrsta deildarleik í átta mánuði.
Villa vildi þakka fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn með því að fara úr treyjunni en undir henni var mynd af fjölskyldu hans og undir stóð: „Þetta hefði verið ómögulegt án ykkar."
Spænska knattspyrnusambandið leyfir engin slík skilaboð sama hver þau eru og því bíður David Villa nú sekt á bilinu tvö til þrjú þúsund evrur eða frá 300 til 450 þúsund í íslenskum krónum.
Villa fótbrotnaði illa í desember í fyrra og missti af restinni af tímabilinu sem og Evrópumótinu í sumar. Hann kom inn á sem varamaður á 74. mínútu á sunnudagskvöldið við mikinn fögnuð stuðningsmanna Barca á Nou Camp og ekki var minni fögnuður þegar hann skoraði fimmta mark Barcelona tíu mínútum síðar.
David Villa sektaður fyrir fjölskyldukveðjuna
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
