Innlent

Bæklingur IKEA ekki allur þar sem hann er séður

Drög að eldhúsi.
Drög að eldhúsi. mynd/ikea
Síðustu ár hefur húsgagnaframleiðandinn nýtt tölvutækni til að raða saman aðlaðandi herbergjum í stað þess að smíða heilu setustofurnar.

Tólf prósent af öllu kynningarefni IKEA er unnið í tölvu. Á næsta ári mun sú tala hækka upp í 25. Það er því góður möguleiki á að fallegi sófinn — sem passar svo fullkomlega — sé í raun samansafn pixla sem listamaður setti saman.

Lengi vel notaði IKEA tvo þriðju af kynningarfé sínu í að smíða herbergi fyrir bæklinga sína. Núna, hins vegar, þegar tölvugerðar ljósmyndir verða sífellt raunverulegri hefur fyrirtækið nýtt sér myndvinnsluforrit til að skapa ljósmyndir fyrir kynningarefni sitt.

Þetta er tölvugerð mynd af eldhúsi í kynningarbæklingi IKEA.mynd/IKEA
„Þetta er afar hentug leið til spara peninga," segir Anneli Sjogren, stjórnandi ljósmyndasviðs IKEA en hún vinnur nú að gerð kynningarbæklings fyrirtækisins fyrir næsta ár.

„Núna þurfum við ekki lengur að henda heilu eldhúsunum á haugana eftir myndatökuna," segir Anneli.

Þar að auki geta markaðsfulltrúar IKEA breytt myndunum eftir sínum þörfum. Dökkur viður er mögulega vinsæll í einu landi á meðan ljós þykir fallegur í öðru.

Það er síðan vert að benda á að IKEA mun prenta 208 milljón eintök af kynningarbækling sínum á þessu ári, og það fyrir 43 lönd. Þetta eru helmingi fleiri eintök en prentuð eru af Biblíunni á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×