Innlent

Komu akandi til að blása

Þessi mynd var tekin á Bestu útihátíðinni í sumar. Þar voru allir ökumenn látnir blása.
Þessi mynd var tekin á Bestu útihátíðinni í sumar. Þar voru allir ökumenn látnir blása. mynd/fréttastofa
Umferðin um landið hefur gengið vel í dag. Fjölmargir hafa nýtt sér þá þjónustu lögreglunnar að fá að blása í áfengismæli áður en lagt er af stað. Þá er talið að umferðin þyngist með kvöldinu.

Ætla má að tugþúsundir Íslendinga fari heim úr fríi helgarinnar í dag en fyrir utan umferðina á þjóðvegum landsins flutti flugfélagið Ernir um það bil tvö hundruð og fimmtíu manns í dag og Flugfélag Íslands flutti hátt í tvö þúsund manns í dag.

Umferðin að norðan til höfuðborgarinnar hefur verið nokkuð jöfn í dag en umferðarþunginn um Suðurlandið jókst í hvert sinn sem Herjólfur lagði að bryggju.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Ísafirði lögðu flestir af stað suður í hádeginu en lögreglan bauð ökumönnum að blása í áfengismæli áður en lagt var af stað. Hátt í tvö hundruð manns nýttu sér þá þjónustu fyrir vestan og flestir reyndust vera innan réttra marka en aðrir máttu bíða fyrir vestan.

Á Akureyri heimsóttu jafnframt fjölmargir lögregluna til að fá að blása.

Við Landeyjahöfn kom lögreglan á Hvolsvelli sér fyrir og hátt í tvö þúsund manns blésu í mælana þar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var nokkuð um það að fólk kom akandi til að fá að blása. Að minnsta kosti einn maður sem það gerði og mældist ölvaður var tekinn fyrir ölvunarakstur.

Þá er búist við því að umferðin um allt land, og þá sérstaklega í kringum höfuðborgarsvæðið þyngist með kvöldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×