Innlent

Nasa verði rifið 1. júní

Hljómsveitin Retro Stefson á tónleikum á Nasa
Hljómsveitin Retro Stefson á tónleikum á Nasa mynd/Hörður Sveinsson
„Þetta eru sorglegar fréttir fyrir mig og marga aðra," segir Ingibjörg Örlygsdóttir, betur þekkt sem Inga á Nasa, en hún hefur rekið skemmtistaðinn við Austurvöll í rúman áratug. Inga segist í dag hafa fengið þær fregnir að þann 1. júní næstkomandi verði húsið rifið vegna áforma um að byggja hótel á reitnum.

Húsið er í eigu einkaðila, Péturs Þórs Sigurðssonar, sem Inga segir að hafi keypt húsið á sínum tíma með það fyrir augum að byggja þar hótel. Inga segir að nú hafi hann tekið ákvörðun um að staðurinn verði rifinn í sumar.

Inga segir fréttirnar mjög sorglegar en hún hefur rekið staðinn frá árinu 2001. „Ég er mjög ósátt og tel að það hefði verið hægt að borga manninum hærri leigu en þá erum við aftur komin í það að keppa við ríki og borg, með Hörpuna og Tjarnarbíó sem eru styrkt af Reykjavíkurborg."

Hún segir að þó til standi að rífa húsið, sé ekki enn búið að því. „Svona er staðan núna, staðurinn er náttúrlega bara að loka út af þessu. En eins og ég segi að þá er ekki búið að rífa húsið. Þetta er ekki bara ég, það er fullt af fólki listamönnum og öðrum sem fá tekjur héðan. Svo er þetta hús náttúrlega mjög skemmtilegt."

Hún segir ennfremur að Airwaves-tónlistarhátíðin sé í uppnámi vegna þessa en Nasa hefur verið stór hluti af hátíðinni síðustu ár.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.