Lítið Kötluhlaup varð í kringum síðustu mánaðamót og stóð í nokkra daga. Órói í eldstöðinni kom fram á jarðskjálftamæli og aukin rafleiðni mældist í Múlakvísl.
Greint er frá hlaupinu í vikuyfirliti Veðurstofunnar yfir jarðskjálfta á landinu. Fram kemur að þessa hafi fyrst orðið vart rétt undir mánaðamótin og þann 28. apríl hafi smáhlaup hafist í Múlakvísl. Aukinn órói sást á jarðskjálftamæli á Láguhvolum í nágrenni Múlakvíslar og hélst það í hendur við aukna rafleiðni sem mældist á leiðnimæli við Léreftshöfuð í Múlakvísl.
Á línuriti má sjá að rafleiðni hélst mikil í ánni allt fram til 7. maí eða í um vikutíma og skjálftamælir sýndi óróa enn lengur.
Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur á Veðurstofunni, rekur þetta til jarðhitavirkni í einum af kötlum Mýrdalsjökuls en segir hlaupið hafa verið svo lítið að enginn hafi séð það.
Reynir Ragnarsson, flugmaður í Vík í Mýrdal, flaug yfir jökulinn en sá engar nýjar sprungur eða önnur ummerki á yfirborði.
Jón Frímann Jónsson, áhugabloggari um eldfjöll og jarðskjálfta, telur sig hafa greint tvo atburði í Kötlueldstöðinni, sá fyrri hafi verið í kringum 28. apríl og sá síðari 6.- og 7. maí, og telur þetta skýr viðvörunarmerki um að eitthvað sé að gerast í Kötlu.
Órói í Kötlu olli smáhlaupi í Múlakvísl
Kristján Már Unnarsson skrifar
