Innlent

Rúllubaggar geta verið stórhættulegir

Ekki er vitað hvort baggarnir sem urðu stúlkunum að bana í Danmörku séu eins og þeir sem búnir eru til hérlendis.
Ekki er vitað hvort baggarnir sem urðu stúlkunum að bana í Danmörku séu eins og þeir sem búnir eru til hérlendis. fréttablaðið/gva
„Mesta hættan af rúlluböggum er þegar menn eru að rúlla eða binda í brattlendi. Þar þarf að gæta sérstakrar varúðar og svo þegar verið er að stafla þessu í mjög háar stæður,“ segir Bjarni Jónsson, sem hefur skrifað leiðbeiningar fyrir bændur um slysahættu af rúlluböggum.

Í síðustu viku létust þrjár systur í Danmörku þegar þær voru við leik í heybaggastæðu sem síðan hrundi ofan á þær.

Stúlkurnar voru á aldrinum sex til þrettán ára, en talið er að þær hafi látist vegna áverka sem þær hlutu undan þyngslum bagganna. Mikil sorg ríkir í Danmörku vegna þessa voveiflega atburðar.

Bjarni telur ólíklegt að svipað slys geti orðið með þeim böggum sem hér eru gerðir. „Þegar baggarnir eru sestir á túnið fá þeir fljótlega á sig flöt sem þeir eru allstöðugir á. Svo er plastið stamt þannig að það þarf mikla óheppni og óaðgæslu til þess að baggarnir fari af stað.“

Hann segir þó allt geta gerst og ítrekar að rúllubaggar séu stórhættulegir ef þeir fara af stað. Hann segir engan eiga erindi á svæði þar sem verið er að binda bagga.

„Svo barnvænn og rómantískur sem landbúnaður hefur verið í augum margra, þá er þetta bara orðin vinna með stórar vinnuvélar nú til dags.“ segir Bjarni.

- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×