Innlent

Nauðsynlegt að taka á öryggisferlum á leikskólum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Herdís Storgaard, verkefnisstjóri slysavarna sarna.
Herdís Storgaard, verkefnisstjóri slysavarna sarna.
"Slysið sem átti sér stað á leikskólanum í Hafnarfirði var afar alvarlegt. Því miður er ákveðið úrræðaleysi þegar slys eins og þessi eiga sér stað." Þetta segir Herdís Storgaard, verkefnisstjóri slysavarna barna.

Greint var frá því í kvöld að tveggja ára gamall piltur á leikskóla í Hafnarfirði tvíhandleggsbrotnaði við leik. Starfsfólk leikskólans tók hins vegar ekki eftir neinu. Þegar móðir piltsins náði í hann tók hún eftir áverkunum.

Herdís segir að hún og aðrir hafi unnið markvisst að því síðustu ár að bæta úr aðstæðum á leikskólum landsins. Að koma því í skilning að sum leiktæki henti ákveðnum börnum ekki. Að sama skapi hafi mikið átak í slysavörnum á leikskólum átt sér stað.

„Nú þegar búið er að horfa til umhverfis barnanna, þá þarf að líta á fræðslu starfsfólksins." segir Herdís. „Það er þekkingarleysi starfsfólksins sem skiptir máli."

Síðustu mánuði hefur Herdís unnið að gerð handbókar um einmitt þetta. „Núverandi menntamálaráðherra hefur sett reglugerð um öryggisferla á leikskólum og handbókin vísar til þessarar ráðstafanna. Þar kemur fram hvernig eigi að fylgjast með börnum, kunnátta á skyndihjálp og að meta áverka barna. Auk þess legg ég mikla áherslu á það að lagður verði peningur í það að halda námskeið fyrir starfsfólk leikskóla þar sem þessi mál eru kynnt."

Hin hliðin á málinu er síðan eftirfylgni mála og rannsókn.

„Ég hef talað við marga foreldra sem misst hafa börn sín við slíkar aðstæður," segir Herdís. „Þeim langar að vita hvað gerðist. Þeim er tjáð að þetta hafi verið slys. Um leið halda þau að barnið hafi gert mistökin og það gengur ekki."

Þá fagnar Herdís elju Maríu Sveinsdóttur, móður piltsins sem slasaðist í Hafnarfirði. „Hún hefur verið ótrúlega dugleg við að vekja athygli á þessu máli, að sama skapi Hafnarfjarðarbær. Við stefnum að því að skoða þetta mál alveg ofaní saumana."


Tengdar fréttir

Sonurinn handleggsbrotinn og enginn tók eftir

Móðir í Hafnarfirði hefur farið fram á að starfsfólk á leikskólum verði þjálfað í slysahjálp eftir að sonur hennar gekk handleggsbrotinn um deildir skólans í tvær klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×