Innlent

Sléttuvegurinn alls ekki sléttur

Stígurinn virðist enda á miðri leið og við tekur malarvegur. Slíkt getur reynst mikil hindrun fyrir fólk sem á erfitt með gang eða ferðast um í hjólastól.
Stígurinn virðist enda á miðri leið og við tekur malarvegur. Slíkt getur reynst mikil hindrun fyrir fólk sem á erfitt með gang eða ferðast um í hjólastól.
Árvakur lesandi sendi Fréttablaðinu myndir frá Sléttuvegi við Fossvog. Fræst hefur verið upp úr veginum og mikið af glerbrotum liggur nú í fræsingunni. Einnig er stígur í botni götunnar lýstur upp, en stígurinn sjálfur einungis malarvegur.

Lesandinn bendir á að mikið af eldri borgurum og hreyfihömluðum búi í næstu húsum sem eigi erfitt með að ferðast um í jafn miklum torfærum.

„Stígurinn er inni á byggingarsvæði og það er fyrirhugað að byggja austan megin við stíginn. Við slíkar framkvæmdir fara stígar gjarnan mjög illa. Við værum að henda peningum ef við færum út í stígagerð þarna,“ segir Jóhann S. D. Christiansen, starfsmaður skrifstofu gatna- og eignaumsýslu Reykjavíkurborgar. Hann bendir á að skammt frá sé fullbúinn stígur.

„Það er annar stígur 26 metrum frá þessum. Hann er fullgerður og reiknað er með að umferðin fari um hann.“ Í sambandi við fræsta malbikið á Sléttuveginum segir Jóhann lítið mál að sópa glebrotunum upp, en malbikunin fari fram samfara frekari uppbyggingu á svæðinu. - ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×