Völsungur þarf aðeins eitt stig til viðbótar til að tryggja sæti sitt í 1. deild karla að ári. Liðið vann 1-0 sigur á Fjarðabyggð í dag.
Marko Blagojevic skoraði eina mark leiksins á 79. mínútu en með sigrinum endurheimti liðið fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.
Völsungur er nú sex stigum á undan KV, HK og Aftureldingu sem eru í 3.-5. sæti deildarinnar með 37 stig hvert. Tvær umferðir eru eftir og nægir því Húsvíkingum eitt stig til viðbótar til að gulltryggja sæti sitt í 1. deildinni.
Fjarðabyggð er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni en liðið þarf helst að vinna báða leiki sína sem eftir eru til að forða sér frá falli.
Afturelding, HK og KV unnu sína leiki í dag en þegar þetta er skrifað er leik Gróttu og Dalvíkur/Reynis ólokið. Hann hófst klukkan 15.00.
Úrslit dagsins:
Afturelding - KFR 4-2
Völsungur - Fjarðabyggð 1-0
Hamar - HK 1-4
Reynir S - KV 2-5
Upplýsingar um markaskorara frá úrslit.net.
Uppfært 17.00: Grótta og Dalvík/Reynir gerðu markalaust jafntefli.
