Innlent

Umferðarþungi í Árborg nær hápunkti sínum

Lögreglumenn stýrðu umferð á Selfossi í dag.
Lögreglumenn stýrðu umferð á Selfossi í dag. mynd/DFS.is
Umferð um Selfoss er nú að hápunkti sínum. Stöðugur straumur fólks hefur verið um bæinn en margir leggja nú leið sína í Vestmannaeyjar þar sem þjóðhátíð fer fram. Lögreglan í Árborg hefur í nógu að snúast en Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í bænum um helgina. Búist er við um 13 þúsund landsmótsgestum.

Á einum tímapunkti brugðu lögreglumenn á Selfossi á það ráð að fara út úr bílum sínum og stýra umferðinni. Fréttavefurinn DFS.is hefur eftir Þorgrími Óla Sigurðssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni, að mikið álag fylgi landsmótinu. „Þetta hefur allt gengið ótrúlega vel þrátt fyrir þessa miklu umferð," sagði Þorgrímur.

Lögreglumaður á Selfossi segir að fólk hafi verið þolinmótt þegar tafir mynduðust við Selfoss og Hveragerði fyrr í dag. Sem fyrr var ökumönnum bent á að fara þrengslin og létti það verulega á helstu álagspunktum við bæjarfélögin.

Umferð hefur gengið áfallalaust. Þyrla Landhelgisgæslunnar var á sveimi yfir helstu umferðaræðum í Árborg. Svo virðist sem fólk fari rólegt í fríið — einn var tekinn fyrir hraðakstur í umdæminu.

Þyrlan fylgdist einnig með ökumönnum við Borgarnes. Samkvæmt lögreglunni þar á bæ hefur umferð verið stöðug og án teljandi tafa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×