Innlent

Alls óvíst hvaða áhrif innganga Mónakó og Andorra hefði á EES samninginn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson er utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson er utanríkisráðherra.
Hugmyndir eru uppi um að þrjú smáríki, en það eru San Marínó, Mónakó og Andorra, gangi inn í EFTA samninginn og bætist því í hóp Íslands, Noregs og Lichtenstein sem eru í EES. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að málið hafi ekki verið borið upp við sig formlega en það hafi verið rætt óformlega á fundi utanríkisráðherra í byrjun desember. Hann segir þó að svo virðist sem málið hafi verið rætt í þaula innan Evrópusambandsins. Engin niðurstaða er komin í málið.

„Þetta mál hefur ekki komið formlega til okkar með þeim hætti að þessi ríki hafi óskað eftir aðild að EFTA. þetta mál hefur hins vegar rætt í þaula, að því er virðist, innan Evrópusambandsins þar sem mönnum hefur þótt niðurstaða að kanna þennan möguleika - þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún kemur upp þessi umræða," segir hann.

Hann segist hafa starfað á vettvangi EFTA, með einhverjum hætti síðan 1991, og á þeim tíma hefur þetta mál tvisvar sinnum komið upp. „Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það væri miklu betra fyrir þessi litlu ríki að ganga beint inn í Evrópusambandið heldur en að gerast meðlimir i EFTA og EES. Ég tel að það henti hagsmunum þeirra betur," segir hann.

Össur segist ekki vilja tjá sig um það hvaða áhrif það hefði á stöðu Íslands ef EFTA ríkjum myndi fjölga. „Ég held að það sé of snemmt að draga einhverjar ályktanir um það," segir hann aðspurður um hvort þetta myndi styrkja tilvist EES samningsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.