Fótbolti

Allan Simonsen varð sextugur í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allan Simonsen.
Allan Simonsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Allan Simonsen er einn allra farsælasti fótboltamaður Dana frá upphafi en hann sannaði það heldur betur á sínum tíma að margur er knár þótt að hann sé smár. Simonsen hélt upp á sextugtsafmælið sitt í gær en hann er fæddur 15. desember 1952.

Simonsen var í hópi bestu fótboltamanna heims á áttunda og níunda áratugnum og flestir eru á því að aðeins Michael Laudrup standi honum framar meðal danskra knattspyrnumanna.

Allan Simonsen fór frá Vejle Boldklub til þýska liðsins Borussia Mönchengladbach árið 1972 þar sem að hann átti eftir að gera frábæra hluti og vann meðal annars þrjá meistaratitla og tvo Evróputitla. Árið 1977 var hann kosinn besti knattspyrnumaður Evrópu.

Simonsen fór frá Borussia Mönchengladbach til Barcelona árið 1979 þar sem hann lék til ársins 1982. Simonsen skoraði 76 mörk í 178 leikjum með Gladbach en 31 mark í 98 leikjum með Barca.

Simonsen lék 55 landsleiki fyrir Dani á árunum 1972 til 1986 og skoraði í þeim 20 m0rk.

Hann lagði skóna á hilluna árið 1989 eftir að hafa leikið síðustu sex ár ferilsins með Vejle Boldklub. Hann hefur síðan reynt við þjálfun og var meðal annars landsliðsþjálfari Færeyinga frá 1994 til 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×