Innlent

Þotukaupin réðust að morgni eftir næturfund

Kristján Már Unnarsson skrifar
Airbus-verksmiðjurnar voru hársbreidd frá því að ná samningunum um endurnýjun flugflota Icelandair og voru inni í myndinni allt fram á miðvikudagsmorgun þegar næturlöngum samningafundum lauk með því að Icelandair-menn völdu Boeing.

Það var í hádeginu í gær sem ráðamenn Icelandair kynntu þá ákvörðun sína að velja Boeing 737 MAX sem framtíðarvél félagsins, með því að panta tólf slíkar þotur og festa sér kauprétt að öðrum tólf til viðbótar. Þessi niðurstaða fékkst að undangengnum stífum samningaviðræðum við bæði Boeing og Airbus, sérstaklega undanfarna tvo mánuði, en hinn valkostur Icelandair var að kaupa vélar af gerðinni Airbus A-320 og A321 frá evrópska framleiðandanum.

Endasprettur þessara risasamninga síðustu daga var í raun æsispennandi. Bæði Boeing og Airbus voru mætt með samningamenn sína til Reykjavíkur, Icelandair-menn funduðu með þeim á víxl fyrri hluta vikunnar, og samkvæmt heimildum fréttastofunnar voru Airbus-þoturnar inni í myndinni allt fram á miðvikudagsmorgun. Raunar var staðan um tíma þannig að líklegra þótti að Airbus yrði ofaná.

Úrslitin réðust ekki fyrr en um sjöleytið um morguninn, eftir næturlangan samningafund með fulltrúum Boeing, en þar lagði bandaríski flugvélaframleiðandinn fram nýtt tilboð. Samningamenn Icelandair lögðu tilboðið fyrir stjórn félagsins, sem veitti samþykki sitt. Þar með varð ljóst að Boeing, en ekki Airbus, verður aðalfarkosturinn í millilandaflugi Íslendinga, sennilega næstu áratugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×