Fótbolti

Í tveggja leikja bann fyrir útrétta löngutöng

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Anton
Ottmar Hitzfeld, landsliðsþjálfari Sviss, var í dag dæmdur í tveggja leikja bann fyrir óíþróttamannslega framkomu í leik Sviss gegn Noregi í síðasta mánuði. Aganefnd FIFA tók mál hans fyrir í dag og dæmdi hann einnig til að greiða tæpa eina milljón króna í sekt.

Sviss er með Íslandi í riðli í undankeppni HM 2014 en Hitzfeld var afar óánægður með frammistöðu dómaranna í leiknum gegn Noregi og sýndi þeim tvívegis „fingurinn".

Hann missir því af næstu tveimur leikjum Sviss í undankeppninni en þeir eru báðir gegn Kýpur. Sá fyrri er á útivelli í mars og sá síðari á heimavelli í júní.

Hitzfeld kom með lið sitt til Íslands eftir leikinn gegn Noregi og vann 2-0 sigur á okkar mönnum á Laugardalsvelli. Sviss er í efsta sæti riðilsins með tíu stig af tólf mögulegum. Ísland er í fjórða sæti með sex stig.

Hitzfeld getur ekki áfrýjað niðurstöðunni og er hún því endanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×