Innlent

Sif Traustadóttir: Aðfarir tamningakonunnar klárlega dýraníð

Sif Traustadóttir.
Sif Traustadóttir.
„Ég er búin að ráðfæra mig við hestafólk, þetta eru ekki tamningar, það eru allir sammála um það," segir Sif Traustadóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands um tamningakonuna sem myndband birtist á Youtube þar sem hún virtist beita óvanalega harkalegum aðferðum við tamningar á hesti.

„Það lítur út fyrir að hún sé bara að hrekkja hann," segir Sif í viðtali við Reykjavík síðdegis í dag en þar kom einnig fram að sambandinu hefði borist mikið af tilkynningum vegna málsins og að það hefði verið tilkynnt til lögreglu.

Konan lamdi hestinn ítrekað með písk.
„Við höfum fengið ábendingar um það hver þetta gæti verið og við höfum tilkynnt þann aðila til lögreglu," sagði Sif en fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 að konan sem sæist á myndbandinu hefði útskrifast í fyrra sem tamningamaður frá háskólanum á Hólum þar sem hún þótti standa sig með prýði. Hún hefur aftur á móti verið rekin úr þar sem hún starfaði sem tamningamaður þar til myndbandið varð opinbert.

Þegar Sif er spurð hvort þarna sé um dýraníð að ræða svarar hún umbúðalaust: „já, þarna er klárlega um dýraníð að ræða."

Málið er semsagt inni á borði lögreglu og óvíst með næstu skref, en konan mun hafa leitað til lögfræðinga til þess að kanna stöðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×