Fótbolti

Zlatan með fjögur glæsileg mörk í sigri á Englandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Zlatan Ibrahimovic skoraði öll fjögur mörk Svía þegar að liðið vann 4-2 sigur á Englandi í vígsluleik á nýjum leikvangi í Stokkhólmi.

Friends Arena heitir nýi völlurinn og tekur 50 þúsund manns í sæti. Það þótti vel við hæfi að Zlatan Ibrahimovic, ein allra mesta knattspyrnuhetja Svía frá upphafi, skuli hafa skorað fyrsta markið á nýja vellinum en það gerði hann á 20. mínútu.

Englendingar náðu þó að snúa leiknum sér í vil á þriggja mínútna kafla um stundarfjórðungi síðar. Fyrst skoraði Danny Welbeck gott mark eftir fyrirgjöf Ashley Young og varnarmaðurinn Steven Caulker kom svo Englandi yfir eftir sendingu Steven Gerrard úr aukaspyrnu. Caulker var að spila sinn fyrsta A-landsleik í kvöld en Gerrard sinn hundraðasta.

Zlatan var þó ekki búinn að segja sitt síðasta - síður en svo. Síðustu mínútur leiksins voru einfaldlega eign hans.

Hann jafnaði metin í 2-2 með bylmingsskoti á 77. mínútu. Sjö mínútum síðar skoraði hann beint úr aukaspyrnu og svo fjórða markið á 90. mínútu, en það var sérlega glæsilegt.

Joe Hart, markvörður Englands, var þá kominn úr eigin vítateig til að skalla boltann frá. Zlatan sneri sér þá við, náði til boltans með glæsilegri bakfallsspyrnu og setti boltann í netið af um 30 metra færi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×