Fótbolti

Zlatan sá fyrsti sem skorar fjögur mörk gegn Englendingum

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Zlatan Ibrahimovich fór á kostum í gær þegar hann skoraði öll fjögur mörkin í 4-2 sigri Svía gegn Englendingum í vináttulandsleik í knattspyrnu. Fjórða markið sem Zlatan skoraði er helsta fréttaefnið í dag enda stórglæsilegt en samkvæmt heimildum Infostrada er Zlatan sá fyrsti sem skorar fjögur mörk í landsleik gegn Englendingum.

Hollendingurinn Marco van Basten skoraði þrennu gegn Englendingum árið 1988 en frá þeim tíma hefur engum tekist að skora þrennu gegn Englendingum – fyrr en í gær.

Zlatan hefur ekki náð sér á strik gegn enska landsliðinu eða enskum liðum, og hann svaraði heldur betur fyrir sig í gær.

„Það er bara þannig með Englendinga að leikmaður sem skorar ekki gegn þeim er ekki góður. Í dag er þessu kannski öfugt farið," sagði Zlatan í gær í viðtali við Aftonbladet.

Zlatan lýsti markinu sem skoraði með þessum hætti: „Þetta var fínt mark, ég vissi hvar markið var, og ég reyndi að hitta boltann vel. Ég reyndi að snúa mér í þá átt sem ég vildi að boltinn færi og ég hitti boltann mjög vel. Ég hafði kannski heppnina með mér þegar boltinn skoppaði inn í markið," sagði Zlatan en hann var ánægðastur með fyrsta markið sem hann skoraði.

„Ég er ánægðastur með það, það er sögulegt," sagði Zlatan en hann er sá fyrsti sem skorar mark á nýjum þjóðarleikvangi Svía, Friends Arena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×