Fótbolti

Verður Thierry Henry kosinn bestur í bandarísku deildinni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry.
Thierry Henry. Mynd/Nordic Photos/Getty
Thierry Henry, fyrrum leikmaður Arsenal og Barcelona, er einn af þremur leikmönnum sem koma til greina sem besti leikmaður bandarísku atvinnumannadeildarinnar í fótbolta á þessu tímabili en það eru leikmenn, þjálfarar, forráðamenn og fjölmiðlamenn sem hafa atkvæðarétt í kjörinu.

Thierry Henry er orðinn 35 ára gamall en hann skoraði 15 mörk og gaf 12 stoðsendingar í 25 leikjum með liði sínu New York Red Bulls. Henry var með 14 mörk og 4 stoðsendingar í tímabilinu á undan.

Tveir aðrir keppa við hann um útnefninguna en það eru annarsvegar Chris Wondolowski, framherji San Jose Earthquakes, sem setti markamet með því að skora 27 mörk á tímabilinu og hinsvegar Graham Zusi, miðjumaður

Sporting Kansas City, sem var sá sem gaf flestar stoðsendingar eða 15.

New York Red Bulls komst í úrslitakeppnina en datt út í undanúrslitum Austurdeildarinnar eftir tvo leiki á móti D.C. United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×