Fótbolti

Draumamark Bale tryggði Walesverjum sigur á Skotum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bale fagnar ásamt félögum sínum í kvöld.
Bale fagnar ásamt félögum sínum í kvöld. Nordicphotos/Getty
Walesverjar syngja nafn Gareth Bale inn í nóttina en kantmaðurinn magnaði tryggði þjóð sinni stigin þrjú er liðið lagði Skota 2-1 að velli í Cardiff í kvöld.

Heimamenn í Wales voru sterkari aðilinn í kvöld en það voru þó gestirnir sem komust yfir. James Morrison, leikmaður West Brom í ensku úrvalsdeildinni, skoraði á 28. mínútu og Skotar leiddu í hálfleik.

Allan McGregor, markvörður Skota, og félagar hans í vörninni stóðu af sér allar árásir Walesverja þar til á 81. mínútu. Þá braut Shaun Maloney á Gareth Bale, leikmanni Tottenham, í vítateig gestanna. Bale skoraði sjálfur úr spyrnunni.

Á lokamínútunni tók Bale til sinna ráða. Undir mikilli pressu langt fyrir utan vítateig Skota lét hann skotið ríða af. Boltinn sveif í fallegum boga efst í markhorn McGregor og tryggði heimamönnum stigin þrjú. Markið má sjá hér.

Í hinum leikjum A-riðils unnu Króatar 2-1 útisigur á Makedóníu. Ivan Rakitic, leikmaður Sevilla, skoraði sigurmark gestanna. Þá unnu Belgar glæsilegan 3-0 útisigur á Serbum í Belgrad.

Belgar og Króatar eru í efsta sæti riðilsins með sjö stig. Serbar hafa fjögur stig, Walesverjar þrjú, Skotar tvö stig og Makedónar eru á botninum með eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×